Stærsta og veglegasta Ólympíumóti sögunnar lokið


Fáir ef einhverjir hefðu stigið á stokk á eftir Frank Sinatra og hvað varðar Ólympíumót fatlaðra í Kína verður erfitt að standa að öðrum eins viðburði og vísast fyrir Breta að bretta upp ermar hið snarasta. Heimamenn í Kína voru sigursælastir með 211 verðlaun á Ólympíumótinu sem lengi verður í manna minnum. Alls voru sett 279 heimsmet á mótinu og 339 Ólympíumet en 4000 íþróttamenn frá 147 löndum spreyttu sig á mótinu og þar af fimm Íslendingar sem allir stóðu sig með mikilli prýði.

Vera íslenska hópsins í Peking hefur verið eftirminnileg og hópurinn er þegar farinn að gera sér hugmyndir um þátttöku í London 2012. Leiðin til London er löng og ströng og margir sem ætla beint heim til Íslands að æfa.

Lokaathöfnin í dag var öll hin glæsilegasta eins og við var að búast. Flugeldar og miklar danssýningar með glæstum loftfimleikatilþrifum. Phil Craven forseti Alþjóða íþróttasambands fatlaðra sagði við athöfnina að mótið í Peking væri besta Ólympíumót fatlaðra sem farið hefði fram og laug hann þar engu um.

Íslenski hópurinn heldur heim á leið á morgun og er væntanlegur til Ísland á miðnætti. Hvergi bar skugga á veru hópsins í Ólympíuþorpinu í Peking og vill Íþróttasamband fatlaðra koma á framfæri sérstöku þakklæti til íslenska sendiráðsins í Peking sem hefur aðstoðað sambandið í einu og öllu hér úti. Þá fær Erla Magnúsdóttir innilegar þakkir fyrir óeigingjarnt starf í þágu ÍF en hún hefur búið í Peking í 4 ár og var iðin við að sýna Frónverjum alla þá skemmtilegu hluti sem hægt er að gera í þessari tæplega 20 milljón manna borg.

Landsliðshópur ÍF þakkar Kínverjum fyrir hlýjar og góðar mótttökur.
Xie Xie Zhong Guo