Þorsteinn: Mikilvægt í reynslubankann


Lyftingamaðurinn Þorsteinn Magnús Sölvason lyfti 115 kg. í -75 kg. flokki í bekkpressu á Ólympíumóti fatlaðra í Peking en íslenski hópurinn lauk þátttöku sinni á mótinu síðasta sunnudag. Þorsteinn rak smiðshöggið í keppni Íslands hér í Kína en hann stefnir að því að hefja æfingar fljótlega og segist ekki veita af tímanum til að undirbúa sig fyrir Ólympíumótið í London 2012.

Hvernig fannst þér að taka þátt á þessu gríðarstóra móti í Peking?
Þetta var rosalega gaman og mikil upplifun. Gaman að upplifa Ólympíumót fatlaðra og sérstaklega í svona fjarlægu landi.

Árangurinn var ekki sá sem þú hafðir ætlað þér, ertu kominn með hugann við London 2012?
Þó svo árangurinn hafi ekki verið sá sem ég hafði vonast eftir þá var þetta mikilvægt í reynslubankann. Nú fer maður bara að undirbúa sig fyrir næsta Ólympíumót með önnur markmið í huga.

Ætlar þú að taka þér smá frí eða á að fara beint heim í ræktina?
Ég ætla að byrja strax að æfa því það sem ég hef séð á þessu móti í bekkpressunni þá veitir mér víst ekkert af þessum tíma til að komast í sama flokk og þessir kappar.

Framtíðin í lyftingum fatlaðra á Íslandi. Hvernig sérð þú hana?
Ég tel að framtíðin sé björt. Ég kem inn á þetta mót sem frumkvöðull fyrir fatlaða íslenska lyftingamenn og ég held að við eigum góða lyftingastráka sem eiga eftir að gera góða hluti í framtíðinni.