Þorsteinn í 12. sæti í Peking


Lyftingamaðurinn Þorsteinn Magnús Sölvason hafnaði í dag í 12. sæti í bekkpressu á Ólympíumóti fatlaðra í Peking í -75 kg. flokki. Þorsteinn lyfti 115 kg. í fyrstu lyftu en næstu tvær lyftur hjá kappanum voru ógildar.

Heimamaðurinn Liu Lei vann yfirburðasigur í flokknum þegar hann lyfti 225 kg. við mikinn fögnuð áhorfenda. Athygli vakti að Lei var bæði yngsti og léttasti keppandinn en Lei er 18 ára gamall og 70,44 kg. Lei gerði ekki atlögu að heimsmetinu sem samlandi hans Haidong setti í Ástralíu en sú lyfta vó 240 kg!

Í annarri lyftu reyndi Þorsteinn við 125kg. og þyngdin fór upp en dómarar ákváðu að lyftan væri ógild. Arnar Már Jónsson þjálfari Þorsteins sá fátt athugavert við aðra lyftuna hjá Þorsteini og hefði viljað sjá dómara dagsins dæma hana gilda. Í þriðju lyftu reyndi Þorsteinn aftur við 125 kg. en þá vildu lóðin ekki upp.

Nú hefur íslenski hópurinn lokið keppni á Ólympíumótinu og staðið sig með glæsibrag. Hópurinn heldur heim á leið þann 18. september og þangað til verður farin heimsókn á Kínamúrinn, á Torg hins himneska friðar og Peking skoðuð með árvökulum augum ferðamannsins.

Mynd: Þorsteinn veifar aðdáendum sínum í lyftingahöllinni í Peking en hann var rækilega studdur áfram af íslenska hópnum í dag.