Jón Oddur fimmti í 100m. hlaupinu


Spretthlauparinn Jón Oddur Halldórsson varð í dag fimmti í 100m. hlaupi í flokki T 35 á Ólympíumótinu í Peking. Óhætt er að segja að hlaupið hafi verið eftirminnilegt þar sem fjórir hlauparar voru undir heimsmetinu. Jón Oddur kom í mark á tímanum 13,40 sek. sem er hans besti árangur á þessu ári og næstbesti árangur hans á ferlinum. Kínverjinn Sen Yang bætti heimsmetið til muna er hann hljóp á tímanum 12.29 sek. en heimsmetið var 12.98 og var sett í Assen í Hollandi árið 2006.

Jón Oddur hljóp á fimmtu braut frammi fyrir rúmlega 90.000 manns og þegar kappinn var kynntur til leiks rak hann upp skaðræðis stríðsöskur og var klár í slaginn. Heimamennirnir skipuðu tvö fyrstu sætin og stúkan lét vel í sér heyra en Jón Oddur var sáttur við tímann enda besti tími hans á árinu.

Þess má geta að heimsmethafinn Sen Yang er 18 ára gamall og besti tími hans í 100m. hlaupinu á þessu ári er 17.79 sek! Yang þessi fór því hreinlega á kostum frammi fyrir löndum sínum í dag og alls ekki ólíklegt að met hans muni standa í einhvern tíma.

Árangur Jóns er sá besti síðan hann vann til silfurverðlauna á Ólympíumóti fatlaðra í Aþenu 2004 og vindurinn í hlaupinu í dag var -0,3.