Jón Oddur: Eins og í Gladiator


Jón Oddur Halldórsson hafnaði í 5. sæti í 100m. spretthlaupi í flokki T 35 á Ólympíumóti fatlaðra í dag þegar hann kom í mark á tímanum 13.40 sek. Árangurinn var hans næstbesti á ferlinum og var kappinn sáttur við niðurstöðuna. Jón Oddur sagði í snörpu samtali við heimasíðuna að það að ganga inn á leikvanginn hefði örugglega verið eitthvað svipað því þegar skylmingaþrælarnir gengu inn í hringleikahúsið í Róm til forna.

Hvernig var þessi upplifun að ganga inn á völlinn frammi fyrir um 90.000 áhorfendum?
Þetta var bara eins og í bíómyndinni Gladiator. Maður var bara að labba inn í hringleikahúsið í Rómarborg, ég hef bara aldrei upplifað annað eins.

Þegar þú varst kynntur til leiks á vellinum rakst þú upp mikið stríðsöskur. Var það svona í hita leiksins?
Já já, maður þurfti að virkja víkingagenin og það gekk nú bara ágætlega.

Er þetta það stærsta mót sem þú hefur hlaupið á?
Já ég held það, þetta er sennilega það langstærsta sem maður hefur gert og mun sennilega ekki gera aftur.

Þetta er þinn næstbesti tími á ferlinum, ertu sáttur?
Mjög sáttur. Þetta var frábær árangur.

Svakalegt hlaup sem þú tókst þátt í og fjórir hlauparar hlupu undir heimsmetinu. Eitthvað sem fæstir hefðu búist við!Þetta hlýtur að vera eitthvað tímamótahlaup, í það minnsta mjög merkilegt.

Hvað tekur svo við núna?
Nú fer maður brátt heim til Íslands, að borða lambalæri verður mitt fyrsta verk og svo sjáum við til hvað verður.

Þorsteinn Magnús Sölvason lyftingamaður keppir á morgun í bekkpressu og er hann síðastur íslensku keppendanna til að stíga á stokk. Hann lyftir kl. 16:00 að staðartíma eða um kl. 08:00 að íslenskum tíma.