Eyþór lauk keppni í Peking með 5 sekúndna bætingu


Sundmaðurinn Eyþór Þrastarson hefur lokið keppni á Ólympíumóti fatlaðra í Peking en hann varð tólfti í undanrásum í 100m. baksundi í dag og komst því ekki inn í úrslit. Eyþór komst inn á Ólympíumótið á sínum besta tíma sem var 1:25,90 mín. en hann synti í dag á 1:20,12 mín. og bætti þ.a.l. tímann sinn 5,78 sek. Frábær frammistaða hjá þessum unga og efnilega sundmanni sem vafalítið á eftir láta betur fyrir sér finna í lauginni þegar fram líða stundir.

Kínverjinn Bozun Yang hefur verið sjóðheitur á Ólympíumótinu og synti hann í undanrásum með Eyþóri og bætti heimsmetið um tæpa sekúndu þegar hann kom í mark á tímanum 1:08,40 mín. Vatnsteningurinn er að hafa góð áhrif á sundmenn hér í Peking sem slá heimsmet á hverjum degi.

Eyþór var í dag með millitímann 38,57 sek. en lokatími hans var 1:20.12. Sundmenn Íslands hafa því lokið keppni og bæði Eyþór Þrastarson og Sonja Sigurðardóttir stóðu sig með mikilli prýði. Eyþór bætti sína bestu tíma verulega og Sonja synti á sínum besta tíma í tæp tvö ár. Þjálfararnir Ingi Þór Einarsson og Kristín Guðmundsdóttir hafa unnið mikið og gott starf með þau Eyþór og Sonju hér í Peking og getur sundhópurinn sáttur við unað.

Leiðrétting: Í Morgunblaðinu í gær kom fram að Eyþór Þrastarson hefði stórbætt Íslandsmetið í 400m. skriðsundi en það er ekki rétt heldur stórbætti Eyþór sinn eigin besta tíma. Rétt er að Birkir Rúnar Gunnarsson á Íslandsmetið í flokki S 11 í 400m. skriðsundi en það er 5:02,38 mín. og setti Birkir það í Frakklandi árið 1995.

Myndir: Á efri myndinni sendir Eyþór Þrastarson góðar kveðjur upp í stúku en á neðri myndinni eru foreldrar hans ásamt Steinunni móður Sonju Sigurðardóttur en þau þrjú áttu stúkuna í Vatnsteningnum í morgun!

Spretthlauparinn Jón Oddur Halldórsson keppir einnig í dag í 100m. hlaupi og hefst það á slaginu kl. 18:00 að staðartíma eða um kl. 10:00 á Íslandi.