Eyþór: Þetta sund í dag, fæðingin, giftingin og dauðinn


Sundkappinn 17 ára gamli Eyþór Þrastarson var að vonum kátur með árangurinn sinn í 400m. skriðsundi í dag þegar hann hafnaði í 8. sæti á Ólympíumóti fatlaðra í Peking. Eyþór setti persónulegt met þegar hann synti á tímanum 5:11,54 í undanrásum og varð svo áttundi í úrslitasundinu frammi fyrir nokkur þúsund áhorfendum.

Hver voru þín viðbrögð við sundi þínu í undanrásum í dag?
Ég var mjög ánægður með þetta sund og þetta var alveg það sem ég ætlaði mér að gera.

Hvernig upplifðir þú þessa stóru stund í þínu lífi?
Þetta sund í dag, fæðingin, svo giftingin og svo dauðinn.

Ertu búinn að setja þér ný tímamarkmið í 400m. skriðsundi?Þau eru ekki tilbúin en þau eru allavega ekki lengur 5:11,54 mín. í dag.

100m. baksund er næst á dagskrá. Hvernig leggst sú grein í þig?
Ég get ekki annað en látið mér hlakka til. Ég hef ekki bætt mig nægilega í þessu sundi upp á síðkastið en hef hugsað mér að breyta því núna á næstunni.