Eyþór hafnaði í áttunda sæti


Úrslitin í 400m. skriðsundi á Ólympíumóti fatlaðra fóru fram í Peking í kvöld þar sem Eyþór Þrastarson var á meðal keppenda. Eyþór varð áttundi í úrslitasundinu og kom í mark á tímanum 5:15,63 mín. en í undanrásum í morgun synti hann á tímanum 5:11,54 sem er glæsilegur árangur hjá þessum 17 ára sundmanni.

Spánverjinn Enhamed Enhamed nældi sér í gullverðlaun á tímanum 4:38,32, annar varð Kínverjinn Bozun Yang á 4:43,29 og bronsverðlaunin hlutu Kanadamenn þegar Donovan Tildesley synti á tímanum 4:49,45.

Dagurinn í dag var einhver sá stærsti á íþróttamannsferli Eyþórs en tími hans í undanrásum er langbesti tími Eyþórs í 400m. skriðsundi.

Millitímar Eyþórs í úrslitasundinu:

34,49
1:14,11
1:54,13
2:34,76
3:15,06
3:55,55
4:35,55

Lokatími: 5:15,63

Á morgun, 12. september, er enginn af íslensku keppendunum að keppa en þann 13. september eru bæði þeir Eyþór og Jón Oddur Halldórsson að keppa. Eyþór í 100m. baksundi og Jón Oddur í 100m. spretthlaupi.

Mynd: Ingi Þór Einarsson sundþjálfari lætur Eyþór vita að hann sé að nálgast endamarkið.