Baldur jafnaði Íslandsmetið í Peking


Tvö heimsmet voru slegin í dag þegar Baldur Ævar Baldursson keppti í langstökki á Ólympíumóti fatlaðra í Peking. Baldur hafnaði í 7. sæti af 13 keppendum en keppt var sameiginlega í tveimur fötlunarflokkum, F 37 og F 38. Baldur stökk lengst 5,42 metra og jafnaði þar sitt eigið Íslandsmet. Grenjandi rigning var í Fuglshreiðrinu í dag og aðstæður kunnuglegar fyrir Frónverja sem oft á frjálsíþróttamótum heima hafa sætt sig við válynd veður.

Stökksería Baldurs:
5,42; 5,22; 5,39
Úrslit:
5,29; 5,31 og síðasta stökkið var ógilt.
Vindurinn í besta stökki Baldurs var +0,1 en í keppninni var hann nokkuð breytilegur.

Baldur stökk lengst í fyrsta stökkinu sínu í dag er hann fór 5,42 metra og jafnaði þar Íslandsmet sitt sem hann setti á Landsmóti Ungmennafélaga í Kópavogi árið 2007. Baldur hafnaði í 7. sæti eins og áður greinir með samtals 942 stig. Baldur hefur því lokið keppni og eru þeir félagar Jón Oddur Halldórsson spretthlaupari og Eyþór Þrastarson sundmaður næstir þegar þeir keppa í sínum greinum þann 13. september.

Heimsmet var setti í flokki Baldurs í dag (F37) en það gerði Kínverjinn Ma Yuxi þegar hann stökk 6,19 metra. Í flokki F38 var gríðarleg spenna þar sem tveir máttu sætta sig við að deila heimsmetinu en Túnismaðurinn Chida Farhat varð Ólympíumótsmeistari á næstbesta stökki sem var 6,40 metrar. Pakistaninn Ali Haider jafnaði heimsmet Farhat í sínu síðasta stökki í dag þegar hann fór 6,44 metra en þá lengd átti Farhat í fimmta stökki.

Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra Íslands var viðstödd keppnina í kvöld og afhenti blómakransa við verðlaunahátíðina í langstökkinu. Jóhanna er heiðursgestur Íþróttasambands fatlaðra í Peking en á morgun heldur hún aftur heim til Íslands. Grenjandi rigning var í Fuglshreiðrinu þegar Jóhanna afhenti blómvendina en ráðherra lét ekki smá rigningu á sig fá og afgreiddi málið með miklum myndarskap.