Langstökkvarinn Baldur Ævar Baldursson frá Ólafsfirði varð sjöundi á
Ólympíumótinu í Peking í dag og jafnaði Íslandsmet sitt í greininni er hann
stökk 5,42 metra. Heimasíðan lagði nokkrar laufléttar spurningar fyrir Baldur
sem rétt eins og Sonja er staðráðinn í því að komast til London eftir fjögur ár
og ætlar kappinn strax á æfingu á morgun.
Hvernig leið þér þegar
þú gekkst inn á völlinn í dag og sást allan þennan
fjölda?
Mér leið vel og ég ætlaði bara að gera mitt besta og komast í 8 manna úrslitin. Ég var fljótur að blokka út allt mannhafið og var bara einbeittur.
Ertu sáttur við árangurinn?
Já, ég gerði það sem ég ætlaði mér að gera og að enda sjöundi í báðum flokkunum (F 37 og F 38) er bara mjög gott og vera fjórði í mínum flokki er mjög ásættanlegt.
Hvað tekur svo við núna?
Bara æfingar fyrir Ólympíumótið í London 2012, bara strax á morgun!
Ertu farinn að gæla við sex metra markið?
Ég gæli bara fyrst við að ná Evrópumeistarametinu og svo sjáum við hvað setur.