Strax farin að huga að London


Sonja Sigurðardóttir var kát í bragði eftir sundið sitt í dag þrátt fyrir að hafa ekki náð inn í úrslitin í 50m. baksundi. Sonja hafnaði í 10. sæti af 14 á tímanum 57,90 sem er hennar besti tími í tæp tvö ár.

Hvernig leið þér á leið út í laugina?
,,Þetta var svolítið skrítið en hausinn var alveg tómur og ég var vel einbeitt.“

Hver voru þín markmið hér í Peking?
,,Ég stefndi að því að komast í úrslit en ég var tveimur sætum frá því. Nú er ég strax bara farin að huga að Ólympíumótinu í London 2012 en það eru minna en 1500 dagar þangað til svo það er ekki seinna vænna en að fara að undirbúa sig fyrir það,“ sagði Sonja kát í bragði.

Hvað á svo að fara að gera núna í Peking þegar þú ert búin að keppa?
,,Ég ætla að horfa á alla hina íslensku keppendurna og hvetja þá áfram. Svo kíkir maður eitthvað í bæinn,“ sagði Sonja ánægð með öflugt dagsverk.