Össur meitlar Ólympíulið fatlaðra í stein


Í kvöld bauð Össur hf, en hann er einn af helstu stuðningsaðilum ólympíuliðs fatlaðra til kvöldverðar. Þar voru að auki mættir aðstandendur „Team Össur“, sem eru fatlaðir íþróttamenn frá ýmsum löndum sem fá stoðtæki frá Össuri, aðallega gervifætur, auk annars stuðnings.

Þarna voru einnig mætt þau Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra ásamt fylgdarliði og sendiherra Íslands í Kína og hans fólk.

Veislan var að hefðbundnum kínverskum hætti, á veitingastað í gömlum kínverskum stíl. Matseðillinn samanstóð af ótalmörgum smáréttum. Athygli okkar vakti að ekki var eitt einasta hrísgrjón á boðstólum.

Undir borðum fóru fram margvísleg skemmtiatriði að kínverskum sið, einleikur með grímum, töfrabrögð krydduð með grínbrögðum. Mesta athygli okkar og hrifningu vakti þó sýning á kínverskri bardagalist að hætti Jackie Kahn. Færnin og hraðinn voru aðdáunarverð. Það eina sem á vantaði var að kapparnir hlypu upp veggina.

Ræður voru haldnar og menn færðu hver öðrum gjafir. Þannig færði ÍF gestgjöfunum slæður og bindi með merki ÍF. Össur hf færði keppendum Íslands, fararstjóra, félagsmálaráðherra og sendiherranum hverjum og einum stein mikinn sem í var grafið nafn hvers og eins að íslenskum og kínverskum hætti. Með þessu verður orðstír þeirra ódauðlegur.

Að lokninni veislunni var haldið aftur heim í Ólympíuþorpið þar sem við tóku ákafar æfingar í kínverskri bardagalist og þótti spatískt hreyfimynstur fararstjórans sérstaklega ógnvænlegt en jafnframt talsvert spaugilegt.

Á morgun er síðan komið að Baldri Ævari Baldurssyni, Ólafsfirðingi, að keppa í langstökki.