Flott sund hjá Sonju sem lokið hefur keppni í Peking


Sonja Sigurðardóttir reið í dag á vaðið á Ólympíumóti fatlaðra í Peking þegar hún tók þátt í 50m baksundi í Vatnsteningnum víðfræga. Sonja kom í mark á tímanum 57,90 sek. sem er hennar besti tími í tæp tvö ár.

Sonja hafnaði í 10. sæti í undanrásum af 14 keppendum og það dugði því ekki til þess að ná inn í úrslitin. Tvö heimsmet voru slegin í lauginni í dag og komu þau í síðustu tveimur sundunum áður en Sonja hóf sína keppni. Laugin, keppendur sem og áhorfendur voru því í góðum gír og það nýtti Sonja sér vel og synti á 57,90 sekúndum.