Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra Íslands stóð
í dag að veglegu hófi til handa íslensku keppendunum á Ólympíumótinu í Peking.
Jóhanna er heiðursgestur Íþróttasambands fatlaðra á Ólympíumótinu og bauð til
hófs í sendiherrabústað Íslendinga í samráði við Gunnar Snorra Gunnarsson
sendiherra Íslands í Kína.
Íslenski hópurinn átti þarna góða stund með ráðherra sem og
fulltrúum frá Össuri en Össur er einn af aðalstyrktaraðilum Íþróttasambands
fatlaðra. Á Ólympíumótinu eru 23 einstaklingar víðsvegar að úr heiminum sem
skipa Team Össur en það er einvalalið afreksíþróttamanna sem keppa hér í Peking
og njóta þau stuðnings Össurar. Starfsmenn Össurar halda úti blogsíðu á meðan
mótinu stendur á vefsíðunni http://ossur.com/?PageID=3411
Jóhanna hélt skemmtilega tölu yfir hópnum í hófinu og óskaði þeim alls hins besta á mótinu og kvaðst stolt af íslensku keppendunum. Hún sagði einnig að hún hefði skemmt sér konunglega á opnunarhátíð Ólympíumótsins og hlakkaði til að fylgjast með framgangi Íslands hér í Peking. Sveinn Áki Lúðvíksson formaður Íþróttasambands fatlaðra leysti bæði ráðherra og sendiherra út með veglegum gjöfum á hófinu en með Sveini Áka í för hér í Peking eru þau Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri fræðslu- og útbreiðslusviðs og Special Olympics á Íslandi og Þórður Árni Hjaltested ritari stjórnar ÍF.
Sonja Sigurðardóttir ríður á vaðið á morgun þegar hún keppir í 50m baksundi en keppnisdagurinn hefst kl. 09:00 að staðartíma en Sonja syndir laust fyrir kl. 10:00. Við minnum á að sýnt er beint frá hinum ýmsu greinum Ólympíumótsins á vefsíðunni www.paralympicsport.tv
Kristín Guðmundsdóttir sundþjálfari er spennt fyrir morgundeginum og hefur fulla trú á því að Sonja muni gera sitt allra besta í lauginni. ,,Æfingar hafa gengið vel að undanförnu, Sonja er í fantaformi og virðist kunna vel við sig í þessari glæsilegu sundhöll,“ sagði Kristín.
Gullkorn
dagsins á Jón Oddur Halldórsson í samtali sínu við Inga Þór Einarsson
sundþjálfara. Ingi Þór hafði verið að slá um sig og bera sig heldur
karlmannlega:
Jón Oddur: Ingi, þú veist hvernig þetta er með naglann sem stendur upp
úr!
Ingi:
Nei.
Jón Oddur: Hann er alltaf laminn niður!