Jón Oddur fór fyrir íslenska hópnum í hreiðrinu


Hu Jinato forseti Kína opnaði í dag formlega Ólympíumót fatlaðra 2008 við magnaða opnunarhátíð í Fuglshreiðrinu í Peking. Spretthlauparinn Jón Oddur Halldórsson var fánaberi íslenska hópsins en Jón Oddur er eini keppandinn í hópnum sem áður hefur tekið þátt á Ólympíumóti. Athöfnin og allt ferlið í kringum hana tók íslenska hópinn sex klukkustundir. Laust fyrir kvöldmat var lagt af stað frá Ólympíuþorpinu í Fuglshreiðrið og kom hópurinn sæll og glaður aftur heim í kot á miðnætti eftir mikið sjónarspil.

Troðfullt var á leikvanginum og uppselt í hvert einasta sæti og létu þessir 91 þúsund áhorfendur vel í sér heyra. Utanumhald Kínverja á mótinu er með þvílíkum ólíkindum að annað eins verður seint leikið eftir. Við Ólympíumót fatlaðra eru 40.000 sjálfboðaliðar keppendum og gestum innan handar í öllum sínum daglegu erindagjörðum og hvergi bregður út af í skipulaginu.

Vegleg veisla var í boði fyrir þá gesti sem mættu snemma á opnunarhátíðina en hún hófst á innmarseringu þjóðanna þar sem Ísland var nr. 60 í röðinni. Fremstur í flokki fór Jón Oddur Halldórsson með íslenska fánann en lestina ráku þeir félagar Axel Nikulásson tengiliður Íslands við framkvæmdanefnd mótsins og Kári Jónsson frjálsíþróttaþjálfari. Óvenjuleg sjón blasti við hópnum er hann hélt út úr göngunum og inn á leikvanginn enda ekki á hverjum degi sem hátt í 100.000 manns taka á móti þér með lófataki og skemmtilegheitum.

Á opnunarhátíðinni sjálfri unnu Kínverjar mikið með frumefnin, sólarupprásina og tilurð lífsins. Inn á milli skörtuðu heimamenn svo einni sinni merkustu uppfinningu (púðrinu) þegar litríkir flugeldar prýddu himinn. Allt ætlaði svo um koll að keyra þegar heimamenn gengu síðastir inn á leikvanginn. Kínverjar fjölmenntu á pallana og fögnuðu sínu fólki af miklum innilegheitum.

Nokkur þemu voru á hátíðinni sem hófst á myndrænni för um geiminn sem varð svo að skemmtilegu tímaflakki. Börn á aldrinum 6-12 ára vöktu óskipta athygli áhorfenda en þau voru 2000 talsins og komu inn á sviðið í dýrabúningum. Samhæfing þeirra var óaðfinnanleg og undirstrikaði enn einu sinni hversu mikilli vinnu, tíma og fjármunum hefur verið varið í að halda Ólympíumótið hér í Peking.

Lokahnykkurinn var svo ekki af verri endanum í kvöld þegar kínverskur gullverðlaunahafi frá Ólympíumótinu í Aþenu 2004 hífði sig af gólfi leikvangsins í hjólastjól upp í rjáfur og tendraði Ólympíueldinn.

6. september 2008 er dagur sem líkast til mun seint fara úr minni íslenska hópsins en nú er Ólympíumótið hafið og strax á morgun hefst keppnin af fullum þunga. Eins og áður hefur komið fram á heimasíðunni verður það Sonja Sigurðardóttir, ÍFR, sem ríður á vaðið þann 8. september er hún keppir í 50m baksundi.

Vissir þú að:
148 þjóðir marseruðu inn á leikvanginn í dag.
Gunnar Snorri Gunnarsson er sendiherra Íslands í Kína.
Ólafur Magnússon aðalfararstjóri Íslands og Sveinn Áki Lúðvíksson formaður Íþróttasambands fatlaðra eru á sínu sjöunda Ólympíumóti.

Gullkorn dagsins:
Sonja Sigurðardóttir sundkona fékk sér sundsprett í Ólympíuþorpinu. Þetta hafði hún að segja á laugarbakkanum: ,,Það er vatn inni í sundbolnum mínum!“