Móttökuhátíð Íslands fór fram í Ólympíuþorpinu í dag þar sem Íslendingar voru boðnir velkomnir í þorpið og á Ólympíumót fatlaðra. Athöfnin fór fram á alþjóðasvæðinu í þorpinu þar sem íslenski hópurinn fékk góða gesti í heimsókn. Íslenski sendiherrann Gunnar Snorri Gunnarsson var viðstaddur athöfnina sem og formaður ÍF Sveinn Áki Lúðvíksson sem kom til Peking í dag ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur félags- og tryggingamálaráðherra Íslands. Jóhanna verður heiðursgestur Íslands á mótinu.
Ólafur Magnússon aðalfararstjóri Íslands í ferðinni afhenti borgarstjóranum í Ólympíuþorpinu forláta leirvasa við athöfnina í dag. Vasinn var allur hinn veglegasti og þótti borgarstjóranum mikið til koma enda vasinn skreyttur engu öðru en íslenska fáknum.
Á morgun verður svo opnunarhátíð Ólympíumótsins og hefst hún kl. 20:00 að staðartíma eða um hádegisbil á Íslandi. Opnunarhátíðin fer fram í Fuglshreiðrinu glæsilega en leikvangurinn tekur 91 þúsund manns í sæti. Við hvetjum sem flesta til að fylgjast vel með á vefsíðunni www.YouTube.com/ParalympicSportTV en þar verður hægt að nálgast fjölda frétta af mótinu sem og beinar útsendingar.
Keppnisdagskrá íslenska hópsins
8. september – Sonja Sigurðardóttir – 50m baksund
9. september – Baldur Ævar Baldursson – langstökk
11. september – Eyþór Þrastarson – 400m skriðsund
13. september – Eyþór Þrastarson – 100m baksund
13. september – Jón Oddur Halldórsson – 100m spretthlaup
14. september – Þorsteinn Magnús Sölvason – lyftingar, bekkpressa
Þess má geta að hér í Peking er að verða uppselt á alla viðburði í sundhöllinni sem og á aðalleikvanginn sem er fuglshreiðriðs svo von er á fjölmenni við hvern þann atburð þar sem íslensku keppendurnir munu keppa.
Það var heitt í dag og á frjálsíþróttaæfingunni var langstökkvarinn frá Ólafsfirði, Baldur Ævar Baldursson, duglegur við að drekka vatn en hann og Jón Oddur Halldórsson æfðu undir stjórn Kára Jónssonar við æfingavöllinn skammt við fuglshreiðrið í dag.
Gullkorn dagsins:
Fréttamaður að tala við Eyþór
Þrastarson sundmann: „Hvernig líst þér svo á Kína? Æ, ég veit það ekki, ég hef
ekki séð neitt af því ennþá!!“