Laugardaginn 6. september næstkomandi verður Ólympíumót fatlaðra sett í Peking í Kína og mun það standa fram til 17. september. Alls eru 6500 fjölmiðlamenn staddir í Kína og munu þeir gera Ólympíumótinu góð skil en aldrei áður hafa jafn margir starfsmenn fjölmiðla verið við Ólympíumót fatlaðra.
Íslenski hópurinn hélt áfram æfingum sínum í dag og er óðum að fá betri og sterkari tilfinningu fyrir leikvöngunum þar sem greinarnar fara fram. Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra Íslands hélt af stað áleiðis til Peking í dag ásamt þeim Sveini Áka Lúðvíkssyni formanni ÍF, Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur framkvæmdastjóra fræðslu- og útbreiðslusviðs og Special Olympics á Íslandi. Þá var Þórður Árni Hjaltested einnig með í för en hann er ritari stjórnar ÍF. Hæstvirtri Jóhönnu til halds og trausts í ferðinni verða þau Hrannar Björn Arnarsson aðstoðarmaður ráðherra og Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri.
Þetta fríða föruneyti er væntanlegt til Peking á morgun og mun þá m.a. vera viðstatt mótttökuhátíð íslenska liðsins inni í Ólympíuþorpinu sem hefst kl. 18:00 að staðartíma eða kl. 10:00 á morgun.
Á meðfylgjandi mynd sést hvar Jón Oddur Halldórsson fær meðferð hjá Ludvig Guðmundssyni lækni ÍF í ferðinni. Jón Oddur mun keppa í 100m spretthlaupi þann 13. september næstkomandi. Hlaupinu hjá Jóni var breytt af mótshöldurum og það fært frá 12. september til 13. september.
Gullkorn dagsins er í boði Jóns Odds Halldórssonar: Betlarar geta ekki verið vandfýsnir.