Íslenska keppnishópnum var ekki til setunnar boðið í dag og hóf æfingar í og við keppnisstaði sína á Ólympíumótinu í Peking en keppni hefst þann 7. september næstkomandi. Fyrst í röðinni er Sonja Sigurðardóttir sem syndir í 50m baksundi þann 8. september.
Ingi Þór Einarsson annar tveggja sundþjálfara Íslands í ferðinni var með sundfólkinu við æfingar í Vatnsteningnum í dag og bar hann sundhöllinni góða söguna;
,,Sundliðið æfði í vatnsteningnum. Höllin er svakaleg, einu orði sagt, auðvitað er laugin bara 25*50 m og hún er full af vatni, en það er svo margt annað í kring, sem spilar inni í. Það væri hægt að æfa fallhlífarstökk úr loftinu og skíðastökk úr stúkunni. Eyþóri og Sonju fannst svakalega gott að synda í lauginni og fundu sig mjög vel, þrátt fyrir að vera ennþá með ferðaþreytu. Við erum öll spennt fyrir framhaldinu,'' sagði Ingi en sundhópurinn æfir aftur í keppnislauginni í hádeginu á morgun.