Ólympíuþorpið opnar


Senn líður að því að 13. Ólympíumót fatlaðra verði sett í Peking í Kína en opnunarhátíð mótsins fer fram þann 6. september n.k. Undirbúningur framkvæmdaaðila Ólympíumótsins er í fullum gangi og líkt og á Ólympíuleikunum leggja Kínverjar mikið á sig til að allur aðbúnaður verði sem bestur fyrir þátttakendur og aðra þá er að mótinu koma. Keppni í hinum ýmsu greinum Ólympíumótsins fer fram á sömu leikvöngum og notaðir voru á Ólympíuleikunum og keppendur og aðrir búa í Ólympíuþorpinu líkt og þátttakendur á nýafstöðnum Ólympíuleikum. Þannig verður Ólympíuþorpið frá 1. – 18. september heimili 7.383 einstaklinga, þar af 4.099 íþróttamanna. Íslensku þátttakendurnir koma til Peking þann 2. september n.k. og verða þeir formlega boðnir velkomnir í þorpið í móttökuathöfn sem fram fer þann 5. september n.k.